Grindavík semur við bandarískan leikmann

Grindvíkingar hafa samið við bandarískan leikmann.
Grindvíkingar hafa samið við bandarískan leikmann. Eggert Jóhannesson

Brandon Conley mun leika með Grindavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, á komandi keppnistímabili en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag. 

Conley er hávaxinn framherji, tæpir tveir metrar á hæð, og mikill íþróttamaður að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Hann lék með Oral Roberts-háskólanum í Bandaríkjunum áður en hann hélt í atvinnumennsku til Slóvakíu, Finnlands, Austurríkis og síðast til Þýskalands þar sem hann lék með Karlsruhe.

„Það er vel látið af honum frá þeim þjálfurum sem hann hefur leikið fyrir svo við erum spenntir að sjá hann í gulu og bláu þegar fer að hausta. Hann er sterkur undir körfunni og klárar vel en einnig er hann góður varnarlega,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur við undirskriftina.

Grindavík var í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar þegar keppni var aflýst um miðjan mars vegna kórónuveirufaraldursins.

mbl.is