Ánægðir en að sama skapi svekktir

Gunnar Ólafsson í leik með Stjörnunni gegn ÍR fyrr á …
Gunnar Ólafsson í leik með Stjörnunni gegn ÍR fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum auðvitað mjög ánægðir en að sama skapi er ákveðið svekkelsi í þessu, hvernig þetta endaði allt,“ sagði Gunnar Ólafsson, körfuboltamaður Stjörnunnar, eftir að hafa fengið afhentan deildarbikarinn á fundi KKÍ í Laugardalnum í dag.

Stjörnumenn voru efstir fyrir lokaumferðina þegar Íslandsmótið var flautað af vegna kórónuveirunnar. Það varð því engin úrslitakeppni og ekkert lið var krýnt Íslandsmeistari í ár. Aðspurður hvort Gunnar hefði viljað vera spila úrslitakeppnina núna sagði hann: „Ég veit það ekki alveg, ég ákvað að taka þessu eins og þetta er og velta mér ekki of mikið upp úr þessu. Ég hugsa að KKÍ hafi tæklað þetta mjög vel. Keppnismaðurinn í mér er auðvitað mjög ósáttur en rökhugsunin segir að þetta var rétt ákvörðun.“

Þá telur hann að öll lið muni mæta fersk til leiks þegar Íslandsmótið á að hefjast að nýju í október, eftir furðulegt og langt undirbúningstímabil.

„Ég held að menn mæti svo sprækir til leiks fyrir næstu leiktíð. Það voru auðvitað tveir mánuðir þarna sem enginn gat gert neitt og ég hef aldrei upplifað það áður, að geta ekki hreyft mig á þennan máta í svona langan tíma. En menn eru ferskir, líkamlega og andlega fyrir næsta tímabil og ég er ekki einn um það að vera spenntur fyrir að keppa aftur.“

mbl.is