Haukur Helgi samdi við Andorra

Haukur Helgi Pálsson í landsleik.
Haukur Helgi Pálsson í landsleik. mbl.is/Hari

Haukur Helgi Pálsson landsliðsmaður í körfuknattleik leikur í spænsku A-deildinni á komandi keppnistímabili en í dag var tilkynnt að hann væri genginn til liðs við lið Andorra sem leikur í þeirri deild og hefði samið við félagið til tveggja ára.

Haukur, sem er 28 ára gamall framherji, kemur til félagsins frá Rússlandi þar sem hann var í röðum UNICS Kazan á síðasta keppnistímabili.

Andorra er frá samnefndu smáríki í Pýreneafjöllunum en liðið hefur leikið í spænsku ACB-deildinni, þeirri efstu á Spáni, frá árinu 2014. Á nýliðnu keppnistímabili var liðið í sjötta sæti af átján liðum þegar keppni var hætt í mars og fór síðan í úrslitakeppnina sem leikin var í júní en endaði þá í níunda til tíunda sæti. Besti árangur liðsins í mótslok er sjötta sæti tímabilið 2017-18. Þrjú undanfarin tímabil hefur Andorra leikið í Evrópubikarnum, Euro Cup, og komst í undanúrslit keppninnar 2018-19, en beið þá lægri hlut  fyrir Martin Hermannssyni og samherjum hans í þýska liðinu Alba Berlín.

Haukur hefur áður verið í röðum spænsku félaganna Manresa, Breogán og Baskonia á árunum 2011 til 2015, en var þá einnig um skeið með Luleå í Svíþjóð. Hann hefur síðan leikið með Njarðvík (2015-16) og frönsku liðunum Rouen (2016-17), Cholet (2017-18) og Nanterre (2018-19).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert