Lengi verið draumur að komast aftur til Spánar

Haukur Helgi Pálsson í leik með UNICS Kazan.
Haukur Helgi Pálsson í leik með UNICS Kazan. Ljósmynd/Eurocup

„Þetta var alltaf í kortunum þangað til að allt stoppaði vegna kórónuveirunnar. Þeir vildu þá klára sín mál og vera ekki að hrófla við mannskapnum sem ég skildi fullkomlega. En svo var þetta klappað og klárt um leið og þeir kláruðu tímabilið,“ sagði Haukur Helgi Pálsson, landsliðmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is í dag, stuttu eftir að tilkynnt var að hann væri genginn í raðir Andorra sem leikur í spænsku A-deildinni.

Haukur, sem er 28 ára gamall framherji, kemur til félagsins frá Rússlandi þar sem hann var í röðum UNICS Kazan á síðasta keppnistímabili. Hann hafði verið í viðræðum við Andorra síðan í mars og lengi stefnt á að snúa aftur til Spánar.

„Það hefur lengi verið löngum að komast aftur til Spánar eftir að hafa verið þar sem krakki. Ég hef viljað sanna það fyrir sjálfum mér að ég geti spilað þar, ég var bara aðeins of ungur þegar ég var þar síðast. Það hefur alltaf verið minn helsti draumur að komast aftur til Spánar í bestu deild Evrópu,“ sagði Haukur en hann var áður í röðum spænsku félaganna Manresa, Breogán og Baskonia á árunum 2011 til 2015.

Gott skref fyrir leikmann eins og mig

Andorra er frá sam­nefndu smáríki í Pýrenea­fjöll­un­um en liðið hef­ur leikið í spænsku ACB-deild­inni, þeirri efstu á Spáni, frá ár­inu 2014. Á nýliðnu keppn­is­tíma­bili var liðið í sjötta sæti af átján liðum þegar keppni var hætt í mars og fór síðan í úr­slita­keppn­ina sem leik­in var í júní en endaði þá í ní­unda til tí­unda sæti.

„Þetta er lið sem er að keppa um sæti í úrslitakeppninni. Það eru 18 lið í deildinni og alltaf mikil keppni um að komast þangað og ég hef metnað fyrir því að taka þátt í henni. Ég er ánægður með þetta lið, ég þekki þjálfarann aðeins og þeir eru meira að deila boltanum, leyfa öllum að spreyta sig. Fyrir leikmann eins og mig, sem er meira allt í öllu, þá er þetta gott skref til að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert