Stærra en körfuboltinn og við sjálf

Helena Sverrisdóttir aðstoðarþjálfari og Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari kvennaliðs Vals.
Helena Sverrisdóttir aðstoðarþjálfari og Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari kvennaliðs Vals. Ljósmynd/Valur

Helena Sverrisdóttir, spilandi aðstoðarþjálfari og fyrirliði Vals í körfuknattleik, spjallaði við mbl.is eftir að Valsarar fengu afhentan deildarbikarinn með óhefðbundnu sniði í dag. Valsarar voru krýndir deildarmeistarar þegar Íslandsmótið var flautað af í mars vegna kórónuveirunnar og fengu bikarinn afhentan í Laugardalnum í dag.

„Þetta er auðvitað voða sérstakt. Maður var í raun búinn að afskrifa tímabilið þegar þetta var allt flautað af en auðvitað er gaman að vera hérna og vera minntur á að við vorum búin að spila fullt af leikjum og vinna okkur inn þennan deildarmeistaratitil áður en þetta kláraðist,“ sagði Helena sem telur að það hafi verið rétt ákvörðun að stöðva mótið alveg, frekar en að reyna klára það síðar.

„Við erum að sjá hvernig þetta herjar á allan heiminn og það þurfti að ýta stopp á körfuboltann eins og allt annað. Eftir því sem liðið hefur á skilur maður þetta svo bara enn betur og tekur þessi með stakri ró. Vonandi getum við bara byrjað næsta tímabil og klárað það. Faraldurinn er miklu stærri en körfuboltinn og við sjálf, þó við höfum auðvitað lagt mikla vinnu í þetta.“

Íslandsmótið hefst aftur í byrjun október eftir óvenjulega langt undirbúningstímabil en biðin hjá Helenu verður enn lengri. Hún er barnshafandi og spilar ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Hún verður hins vegar í nýju hlutverki þangað til, aðstoðarþjálfari Ólafs J. Sigurðssonar sem tók við af Darra Atlasyni eftir síðustu leiktíð.

„Við fáum nýjan þjálfara og ég vissi að ég myndi ekki spila fyrr en eftir áramót, það var því spennandi að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum á hliðarlínunni þangað til að ég get verið inn á.“

mbl.is