Martin fer til Spánar

Martin Hermannsson varð á dögunum Þýskalandsmeistari með Alba Berlín
Martin Hermannsson varð á dögunum Þýskalandsmeistari með Alba Berlín Ljósmynd/Alba Berlín

Spænska körfuknattleiksliðið Valencia er að semja við Martin Hermannsson landsliðsmann í körfuknattleik, samkvæmt frétt körfuboltavefsíðunnar Eurohoops. 

Þar er sagt að samkvæmt heimildum sé verið að ganga frá nokkurra ára samningi.

Valencia er eitt af stórliðunum í evrópskum körfubolta og hafnaði í tíunda sæti í Euroleague í vetur en Alba Berlín, lið Martins undanfarin tvö ár, hafnaði þar í sextánda sæti.

Liðið var í undanúrslitum um spænska meistaratitilinn á dögunum en tapaði þar naumlega , 75:73, fyrir Baskonia sem síðan vann Barcelona í úrslitaleiknum. Valencia hefur verið samfleytt í einu af sex efstu sætunum á Spáni frá 2009 og vann spænsku deildina árið 2017 en varð síðan í öðru sæti í úrslitakeppninni.

Jón Arnór Stefánsson lék með Valencia 2006-07 og aftur 2015-16 þar sem hann lauk sínum atvinnumannsferli. Tryggvi Snær Hlinason hóf sinn atvinnuferil þar og lék með liðinu 2017 til 2019. Þá er Hilmar Smári Henningsson á mála hjá Valencia og hefur spilað með varaliði félagsins.

mbl.is