Félagaskiptin á topplista Evrópudeildarinnar

Martin Hermannsson gekk til liðs við Valencia á dögunum.
Martin Hermannsson gekk til liðs við Valencia á dögunum. AFP

Körfuknattleikskappinn Martin Hermannsson skrifaði undir þriggja ára samning við spænska stórliðið Valencia á dögunum. Martin kemur til félagsins frá Alba Berlín þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil.

Hjá Alba Berlín varð Martin bæði Þýskalands- og bikarmeistari á nýafstöðnu tímabili og var Íslendingurinn í lykilhlutverki með liðinu á leiktíðinni. Martin er hins vegar kominn til Spánar núna og mun taka slaginn með Valencia.

Félagaskipti Martins eru á topp tíu lista Eurohopps.net yfir mest spennandi félagaskipti sumarsins til þessa en vefmiðillinn sérhæfir sig í fréttum tengdum Evrópudeildinni, sem og stærstu deildum Evrópu.

„Þýska félagið Alba Berlín heldur áfram að framleiða frábæra leikmenn og það er orðið hálfgert þema hjá liðinu að búa til góða leikmenn fyrir stærri lið deildarinnar,“ segir í umfjöllun Eurohoops. „Íslendingurinn mætir sjóðandi heitur til starfa,“ segir ennfremur í umfjölluninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert