Jón Axel að semja í Þýskalandi

Jón Axel Guðmundsson
Jón Axel Guðmundsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmunds­son, landsliðsmaður í körfuknatt­leik, hefur gert samning við þýska félagið Fraport Skyliners, sem áður hét Frankfurt Skyliners, samkvæmt þýskum íþróttafréttamanni sem skrifar fyrir körfuboltatímaritið BIG Deutschland.

Jón Axel lauk sínu fjórða og síðasta ári hjá Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum í vor og tjáði Morgunblaðinu það að hann ætlaði að gefa kost á sér í nýliðaval NBA-deildarinnar. Samkvæmt Heusel hefur hann hins vegar gert samning við þýska félagið og muni því spila þar næsta vetur. Skyliners endaði í 14. sæti í þýsku efstu deildinni á síðustu leiktíð en 17 lið keppa í deildinni. Félagið varð þýskur meistari 2004, bikarmeistari 2000 og vann Evrópubikar FIBA árið 2016.

Jón Axel er 23 ára gamall en hann lék með heimaliði sínu í Grindavík frá 2011 til 2016 áður en hann fluttist til Bandaríkjanna. Martin Hermannsson varð á dögunum þýskur meistari með liði Alba Berlín en samdi í kjölfarið við spænska félagið Valencia.

mbl.is