Jón Axel búinn að semja við Fraport

Jón Axel Guðmundsson í landsleik.
Jón Axel Guðmundsson í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmundsson landsliðsmaður í körfuknattleik hefur samið við þýska félagið Fraport Skyliners frá Frankfurt til eins árs.

Jón Axel staðfesti þetta við mbl.is en hann hefur leikið með háskólaliði Davidson í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár og átt glæsilegan feril með liðinu. Til stóð að hann færi í nýliðaval NBA í haust en óvissa er með það enn sem komið er vegna frestunar á yfirstandandi tímabili vestanhafs.

Skyliners endaði í 14. sæti í þýsku A-deildinni á síðustu leiktíð en 17 lið leika  í deildinni. Liðið fór þó í úrslitakeppni tíu liða um þýska meistaratitilinn sem leikin var í München í júnímánuði og endaði þar í 7.-8. sæti. Félagið varð þýskur meistari 2004, bikarmeistari 2000 og vann Evrópubikar FIBA árið 2016.

Jón Axel er 23 ára gamall bakvörður frá Grindavík og lék með heimaliði sínu þar til hann fór til náms vestanhafs. Hann hefur leikið 11 A-landsleiki fyrir Íslands hönd en ekki alltaf verið tiltækur fyrir liðið vegna Bandaríkjadvalarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert