Heyrði frá félögum í öllum stærstu deildum Evrópu

Jón Axel Guðmundsson spilar í Þýskalandi á næstu leiktíð.
Jón Axel Guðmundsson spilar í Þýskalandi á næstu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur samið við þýska A-deildarfélagið Fraport Skyliners frá Frankfurt til eins árs. Jón hefur leikið með háskólaliði Davidson í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár og vakið athygli víðsvegar um Evrópu fyrir glæsilega frammistöðu. Jón ráðfærði sig við Martin Hermannsson, liðsfélaga sinn hjá landsliðinu, áður en hann skrifaði undir við Fraport, en Martin hefur verið einn besti leikmaður þýsku deildarinnar undanfarin tvö ár með Alba Berlín. Martin samdi við Valencia á dögunum.

Talaði mikið við Martin

„Það er nokkuð síðan félagið hafði fyrst samband við mig, ég var með nokkur tilboð á borðinu og ég var að skoða hvað myndi henta mér best. Staðsetningin heillar og svo talaði ég mikið við Martin og hann sagði mér að félagið kæmi mjög vel fram við leikmennina sína og að leikurinn sem þeir spila hentaði mér mjög vel,“ sagði Jón Axel í samtali við Morgunblaðið.

Jón er á leiðinni í sitt fyrsta tímabil sem atvinnumaður, en góð frammistaða með Davidson í háskólaboltanum í Bandaríkjunum hefur opnað dyrnar í stærstu deildir Evrópu. Jón Axel er eini leikmaðurinn í sögu Davidson-liðsins sem hefur skorað 1.000 stig, tekið 500 fráköst og gefið 500 stoðsendingar. Þá er hann í hópi tíu stigahæstu leikmanna í sögu skólans. Jón var valinn besti leikmaður Atlantic 10-riðilsins á síðasta ári og valinn íþróttamaður ársins hjá Davidson-skólanum í maí.

Áhugi frá sterkustu deildunum

„Það voru nokkur félög í Þýskalandi og svo líka Ítalíu, Frakklandi og öðrum góðum deildum sem sýndu mér áhuga. Stuttu eftir að ég samdi við Fraport hafði svo félag á Spáni samband við mig. Það má því segja að ég hafi heyrt frá félögum í öllum helstu deildum Evrópu. Það er mjög fínt á fyrsta ári,“ sagði bakvörðurinn.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert