Lífið eða launaseðillinn?

Elena Delle Donne stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun.
Elena Delle Donne stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun. AFP

Elena Delle Donne, leikmaður Washington Mystic, í bandarísku WNBA-deildinni í körfuknattleik er ósátt með það að þurfa klára tímabilið þar í landi en ákveðið var að ljúka tímabilinu í deildinni eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Donne er með Lyme-sjúkdóminn sem berst í mannfólk eftir bit frá skógarmítli.

Donne er stórstjarna í WNBA-deildinni en hún var valin verðmætasti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að lið hennar varð meistari. Donne telur sig vera í áhættuhópi um að veikjast alvarlega, fari svo að hún smitist af kórónuveirunni en Lyme-sjúkdómurinn er ekki á lista heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum yfir undirliggjandi sjúkdóma sem gætu valdið dauða vegna kórónuveirunnar.

„Þessi ákvörðun um að byrja spila aftur er mikið áfall,“ sagði Donne í samtali við BBC en hún er þrítug að árum. „Líkami minn tekst öðruvísi á við venjulegar pestir eins og kvef. Forráðamenn deildarinnar eru meðvitaður um þetta og þess vegna átti ég ekki von á því að ég yrði í raun þvinguð til þess að spila því ef ég spila ekki fæ ég ekki borgað.

Valið stendur þess vegna á milli þess að spila og hætta lífi mínu eða spila ekki og fá ekki útborgað. Það gefur augaleið að ég er ekki á sömu launum og leikmenn karladeildarinnar. Ég hef ekki burði eða bolmagn til þess að standa í einhverjum málferlum vegna úrskurðarins og það er því lítið sem ég get gert,“ bætti Donne við.

mbl.is