Lið Tindastóls orðið fullmannað

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, er kominn með þann mannskap …
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, er kominn með þann mannskap sem hann ætlar að nota næsta vetur að sögn Feykis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forráðamenn Tindastóls í körfuknattleik hafa að sögn staðarmiðilsins Feykis lokið við leikmannamálin hjá karlaliðinu fyrir næsta keppnistímabil á Íslandsmótinu. 

Feykir greinir frá því að félagið hafi tryggt sér starfskrafta Bandaríkjamannsins Shawn Glover. Er hann þrítugur og kemur frá Dallas í Texas. Hefur hann leikið víða á ferlinum: á Spáni, í Danmörku, Ísrael og Úrúgvæ. 

Er hann 200 cm á hæð og ætti því að nýtast undir körfunni. Þannig vill til að Glover lék um tíma undir stjórn Israel Martin, fyrrverandi þjálfara Tindastóls, í Bakken Bears í Danmörku. Martin stýrir nú Haukum. 

Í gær var tilkynnt um að reyndur Lithái, Antanaas Udras, sé einnig á leið á Krókinn en hann og Glover mæta til æfinga seint í ágúst. 

Síðasta vor nældi Tindastóll í Nick Tomsick frá Stjörnunni og liðið tekur því nokkrum breytingum á milli tímabila. 

mbl.is