„Þarna gengur allt út á körfubolta“

Elvar Már Friðriksson hittir nýja samherja síðar í mánuðinum.
Elvar Már Friðriksson hittir nýja samherja síðar í mánuðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson varð á dögunum fyrstur íslenskra körfuboltamanna til að semja við úrvalsdeildarlið í Litháen. Mun hann leika með BC Siauliai næsta vetur og heldur utan síðar í ágúst.

Körfuboltaáhuginn í Litháen er mjög mikill og Litháar eru afskaplega stoltir af þeim árangri sem landslið þeirra hefur náð. Skömmu eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur fékk Litháen til að mynda bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 og vakti það heimsathygli enda búa þar einungis um þrjár milljónir manna.

Þekking á íþróttinni er mikil í Litháen og þótt sterkustu leikmenn landsliðsins séu lokkaðir í NBA-lið eða stórlið í Evrópu er deildin engu að síður sterk. Elvar lék í Svíþjóð á síðasta tímabili.

„Ég held að þessi deild sé góður stökkpallur fyrir mig enda sterkari deild en í Svíþjóð. Litháen er líka þjóð sem nýtur virðingar í körfuboltaheiminum. Þarna gengur allt út á körfuboltann því þetta er langvinsælasta íþróttin í landinu. Við spiluðum í þessari höll fyrir Eurobasket fyrir þremur árum. Þá áttaði maður sig betur á áhuganum í Litháen. Umgjörðin var flott og allt dæmið í kringum leikinn var svakalegt. Þá heillaðist ég svolítið af Litháen og fyrir vikið veit ég örlítið um hvað ég er að fara út í. Sú keppnishöll er heimavöllur BC Siauliai,“ sagði Elvar og þjálfari liðsins er Antanas Sireika. Sá er 64 ára gamall og stýrði litháíska landsliðinu frá 2001 til 2006. Undir hans stjórn varð Litháen Evrópumeistari árið 2003.

Viðtalið við Elvar í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert