Harden fór illa með toppliðið

James Harden var í stuði í nótt.
James Harden var í stuði í nótt. AFP

Houston Rockets vann öruggan 113:97-sigur á Los Angeles Lakers í NBA-körfuboltanum í Flórída í nótt. Hefur Lakers, sem er öruggt með toppsæti Vesturdeildarinnar, tapað tveimur leikjum í röð. 

Lakers lék án LeBron James og átti erfitt með að stöðva James Harden sem skoraði 39 stig fyrir Houston. Kyle Kuzma skoraði 21 fyrir Lakers. Lakers hefur þegar tryggt sér toppsæti Vesturdeildarinnar á meðan Houston er í fjórða sæti. 

Eftir slæmt gengi í síðustu leikjum vann Milwaukee 130:116-sigur á Miami Heat. Giannis Antetokounmpo og Khris Middleton skoruðu 33 stig hvor fyrir Milwaukee á meðan Duncan Robinson gerði 21 stig fyrir Miami. Milwaukee er í toppsæti Austurdeildarinnar með 55 sigra og 14 töp. 

Portland vann mikilvægan sigur á Denver, 125:115, og styrkti stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Damien Lillard fór á kostum fyrir Portland og skoraði 45 stig og gaf 12 stoðsendingar. 

Portland er í níunda sæti Vesturdeildarinnar, en átta efstu liðin fara í úrslitakeppnina. Er Portland með 32 sigra eftir 70 leiki og Memphis í áttunda sæti er með 32 sigra eftir 69 leiki. 

Úrslitin úr NBA-körfuboltanum: 

Sacramento Kings - New Orleans Pelicans 140:125
Milwaukee Bucks - Miami Heat 130:116
Phoenix Suns - Indiana Pacers 114:99
Dallas Mavericks - Los Angeles Clippers 111:126
Denver Nuggets - Portland Trail Blazers 115:125
Houston Rockets - Los Angeles Lakers 113:97

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert