Stefnir ÍR vegna vangoldinna launa

Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksmaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur stefnt fyrrverandi félagi sínu ÍR vegna vangoldinna launa sem nema um tveimur milljónum króna. RÚV greinir frá. 

Sigurður gerði tveggja ára samning við ÍR fyrir síðasta tímabil eftir stutta dvöl í Frakklandi hjá BC Orchies. Sigurður sleit hins vegar krossband strax í fyrsta leik og lék ekki meira með liðinu á tímabilinu. 

Skúli Sveinsson lögmaður Sigurðar segir við RÚV að ÍR hafi ákveðið að ekki greiða leikmanninum laun þar sem hann efndi ekki sinn hluta samningsins vegna meiðslanna. 

Var samningi Sigurðar við ÍR rift eftir síðustu leiktíð og samdi hann við Hött á Egilsstöðum í kjölfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert