Gæti Martin komið knattspyrnuliði Valencia að gagni?

Martin Hermannsson fagnaði sigri í þýsku deildinni með Alba Berlín …
Martin Hermannsson fagnaði sigri í þýsku deildinni með Alba Berlín í sumar. Ljósmynd/Alba Berlín

Euroleague, stærsta félagsliðakeppnin í körfuboltanum fyrir utan NBA, birtir í dag skemmtilegt myndskeið af Martin Hermannssyni sem mun leika með Valencia í Euroleague í vetur. 

Þar sýnir KR-ingurinn fótboltatakta með körfubolta á tánum og búningi Valencia eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. 

„Martin Hermannsson getur allt“ er skrifað í færslunni en auk þess er Twittersíða knattspyrnulið Valencia merkt með eftirfarandi skilaboðum:

 „Ef ykkur hjá Valencia FC vantar skyndilega mann á lánssamningi þá þurfið þið ekki að leita langt yfir skammt.“

 Martin lék knattspyrnu með KR í yngri flokkunum og starfaði sem ungur maður á þjóðarleikvanginum Laugardalsvelli. Hann hefur áður vakið athygli fyrir knattspyrnutakta því í landsleik í fyrra lagði hann boltann fyrir sig með enninu í hraðaupphlaupi. Myndband af þeim tilþrifum fór víða á internetinu. 

mbl.is