Meistaraefnin nálgast úrslitin

LeBron James í baráttunni við James Harden í Disney World …
LeBron James í baráttunni við James Harden í Disney World í nótt. AFP

LeBron James átti stórleik fyrir Los Angeles Lakers þegar liðið sló Houston Rockets úr leik í fimmta leik liðanna í 2. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Disney World í Orlando í nótt.

Leiknum lauk með 119:96-sigri Lakers en James skoraði 29 stig í nótt, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Lakers-menn byrjuðu leikinn af krafti, skoruðu 35 stig gegn 20 stigum Houston. Houston minnkaði muninn í 11 stig í öðrum leikhluta en Lakers vann þriðja leikhluta með 15 stiga mun og þar með var björninn unninn.

Anthony Davis skoraði 13 stig og tók ellefu fráköst fyrir Lakers en James Haden var stigahæstur í liði Houston með 30 stig. Russell Westbrook náði sér ekki á strik og skoraði 10 stig.

Lakers vann einvígið samanlegt 4:1 og mætir annaðhvort LA Clippers eða Denver Nuggets í úrslitum Vesturdeildarinnar en þar leiðir LA Clippers 3:2 og mætast liðin í sjötta leik sínum í nótt.

mbl.is