Verður áfram hjá uppeldisfélaginu

Kári Jónsson leikur með Haukum í vetur.
Kári Jónsson leikur með Haukum í vetur. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Körfuknattleiksmaðurinn Kári Jónsson hefur samið við Hauka og mun spila með liðinu í vetur. Var búist við því að Kári myndi spila erlendis í vetur en kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn og verður leikstjórnandinn því áfram í Hafnarfirðinum. 

Kári hefur síðustu ár verið einn besti leikmaður íslensku deildarinnar og samdi hann við spænska stórliðið Barcelona fyrir tveimur árum síðan. Erfið meiðsli settu hins vegar strik í reikninginn og sneri hann aftur í Hauka fyrir síðustu leiktíð. 

Var Kári að komast í sitt besta form þegar síðasta tímabil var blásið af vegna kórónuveirunnar, en hann skoraði 17 stig, tók 3,5 frákast og gaf 6,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. 

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili hjá Haukum og þarna eru margir nýir leikmenn sem verður spennandi að spila með. Við munum gefa allt í þetta eftir lengsta undirbúningstímabil sögunnar og vonandi sjáum við sem flesta í stúkunni að hvetja,“ er haft eftir Kára í fréttatilkynningu Hauka. 

Þjálfarinn Israel Martin var að vonum glaður að halda Kára allavega eitt tímabil til viðbótar. „Að hafa þann möguleika á að þjálfa Kára er frábært því hann er góður drengur og gefur sig allan í þetta. Þetta er stór ráðning fyrir okkur og ég er handviss um að hann muni hjálpa liðinu að ná þeim takmörkum sem við höfum sett okkur,“ er haft eftir Spánverjanum í sömu tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert