Keflvíkingar fá liðsauka

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Keflvíkinga er ánægður með nýjasta liðsmann …
Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Keflvíkinga er ánægður með nýjasta liðsmann þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflvíkingar hafa samið við bandaríska körfuknattleiksmanninn CJ Burks um að leika með liði þeirra á komandi keppnistímabili en þetta kemur fram á samfélagsmiðlum félagsins.

Sagt er að Burks sé væntanlegur til landsins í byrjun næstu viku og ætti að vera klár í fyrsta leik en Keflvíkingar sækja Þórsara heim í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla fimmtudaginn 1. október.

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Keflvíkinga segir um Bandaríkjamanninn að hann sé fjölhæfur vængmaður en einnig góður varnarmaður. Hann hafi útskrifast úr Marshall-háskólanum vorið 2019 og verið þar í hópi lykilmanna öll fjögur árin. „Hann er mikill keppnismaður og ég hlakka mikið til að fá hann í okkar raðir,“ segir Hjalti.

Burks, sem er 24 ára gamall, fór í nýliðaval NBA 2019 en komst ekki að þar og í kjölfarið samdi hann um að leika með ítalska B-deildarliðinu Orzinuovi haustið 2019. Hann var hinsvegar leystur undan samningi eftir mánuð vegna meiðsla en þá blasti við að hann yrði tvo til þrjá mánuði frá keppni.

mbl.is