Magnaður viðsnúningur - enginn borgarslagur í úrslitum

Nikola Jokic, Michael Malone þjálfari og Jamal Murray fagna sigri …
Nikola Jokic, Michael Malone þjálfari og Jamal Murray fagna sigri Denver á Clippers í nótt. AFP

Ekkert verður af einvígi Los Angeles-liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA í körfubolta því Denver Nuggets sló LA Clippers út í oddaleik liðanna í Disneylandi í Orlando í nótt. Denver sneri því blaðinu algerlega við og vann einvígið 4:3 eftir að hafa lent 1:3 undir.

Denver vann þennan sjöunda og síðasta leik á sannfærandi hátt, 104:89, eftir að Clippers var yfir í hálfleik, 56:54. Leikmenn liðsins gáfu þjálfaranum góða afmælisgjöf en Mike Malone hélt upp á 49 ára afmælið sitt í gær.

Nikola Jokic átti magnaðan leik með Denver því hann tók 22 fráköst, skoraði 16 stig og átti 13 stoðsendingar í leiknum. Jamal Murray var hins vegar langstigahæstur í liðinu með 40 stig og þeir Jerami Grant og Gary Harris skoruðu 14 stig hvor.

Montrezl Harrell skoraði 20 stig fyrir Clippers, Kawhi Leonard 14 og Patrick Beverley og Jamychal Green 11 stig hvor.

Það verða því Denver og Los Angeles Lakers sem leika til úrslita í Vesturdeildinni. Denver er fyrsta liðið í sögu NBA sem vinnur tvö einvígi í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 1:3 undir.

„Við tókum ekki á þeim, það gerði útslagið. Ég er þjálfarinn og tek ábyrgðina á því,“ sagði Doc Rivers þjálfari Clippers eftir ósigurinn en hann er nú eini þjálfarinn í sögu NBA sem hefur þrívegis misst 3:1 forystu í einvígi í úrslitakeppninni niður í tap.

Þá hófst einvígi Boston Celtics og Miami Heat um sigurinn í Austurdeildinni í nótt og þar hafði Miami betur í hörkuleik, 117:114. Goran Dragic skoraði 29 stig fyrir Miami, Jae Crowder 22 og Jimmy Butler 20.

Jayson Tatum skoraði 30 stig fyrir Boston og tók 14 fráköst, Marcus Smart skoraði 26 stig, Kemba Walker 19 og Jaylen Brown 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert