Sá fyrsti í sögu NBA

Doc Rivers hefur þrívegis misst niður 3:1-forystu í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.
Doc Rivers hefur þrívegis misst niður 3:1-forystu í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. AFP

Körfuknattleiksþjálfarinn Doc Rivers og lærisveinar hans LA Clippers eru úr leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir 104:89-tap gegn Denver Nuggets í sjöunda leik liðanna í 3. umferð úrslitakeppninnar.

LA Clippers komst í 3:1 í einvíginu en missti niður forystuna og mætir Denver Nuggets liði Los Angeles Lakers í úrslitum Vesturdeildarinnar. Í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar mætast Boston Celtics og Miami Heat.

Doc Rivers er nú eini þjálfarinn í sögu deildarinnar sem hefur þrívegis misst niður 3:1-forystu sem þjálfari. 

Það gerðist fyrst árið 2003 en Rivers var þá þjálfari Orlando Magic sem tapaði 4:3 á móti Detroit Pistons. Sagan endurtók sig svo árið 2015 þegar LA Clippers tapaði fyrir Houston Rockets, 4:3.

LA Clippers hefur aldrei leikið til úrslita í Vesturdeildinni áður og var því í sannkölluðu dauðafæri gegn Denver Nuggets.

Félagið fékk til sín þá Kawhi Leonard og Paul George fyrir tímabilið og ætlaði sér stóra hluti en það dugði ekki til í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert