Sigldi fram úr þremur goðsögnum

Samherjarnir LeBron James og Anthony Davis eru báðir í fimm …
Samherjarnir LeBron James og Anthony Davis eru báðir í fimm manna byrjunarliði NBA. AFP

LeBron James setti met í gær þegar hann var valinn í sextánda skipti í úrvalslið tímabilsins í NBA-deildinni í körfuknattleik.

James, sem er kominn í úrslitaeinvígi Vesturdeildar með Los Angeles Lakers og mætir þar Denver Nuggets, hefur verið valinn oftast allra í sögu deildarinnar og fór fram úr þremur goðsögnum.

Þeir Kobe Bryant, Tim Duncan og Kareem Abdul-Jabbar voru valdir 15 sinnum hver í liðið á sínum tíma en á hælum þeirra eru Karl Malone og Shaquille O'Neal sem voru valdir 14 sinnum hvor.

Samherji hans Anthony Davis er með James í fimm manna byrjunarliði deildarinnar. Þetta er aðeins í sjöunda sinn sem sama lið á tvo leikmenn í byrjunarliðinu og síðast gerðist það tímabilið 2006-07 þegar Steve Nash og Amar'e Stoudamire frá Phoenix Suns voru í liðinu.

Í byrjunarliðinu með James og Davis eru James Harden, bakvörður Houston Rockets, Luka Doncic, bakvörður Dallas Mavericks, og Giannis Antetokounmpo, framherji Milwaukee Bucks.

Í liði tvö eru þeir Kawhi Leonard frá LA Clippers, Nikola Jokic frá Denver, Damian Lillard frá Portland, Chris Paul frá Oklahoma City Thunder og Pascal Siakam frá Toronto.

Í liði þrjú eru síðan þeir Jayson Tatum frá Boston, Jimmy Butler frá Miami, Rudy Gobert frá Utah, Ben Simmons frá Philadelphia og Russell Westbrook frá Houston.

Þeir Doncic, Siakam, Tatum og Simmons eru valdir í fyrsta skipti en Paul og Westbrook eru valdir í níunda sinn hvor og koma næstir á eftir James í árum.

Þeir James og Anetokounmpo fengu báðir 100 prósent kosningu í fimm manna byrjunarliðið. Harden var með 89 prósent, Davis 79 prósent og Doncic 59 prósent. Næstur inn í liðið var Leonard með 39 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert