Læti í búningsklefanum eftir annan ósigur í úrslitunum

Bam Adebayo leikmaður Miami Heat teygir sig eftir boltanum í …
Bam Adebayo leikmaður Miami Heat teygir sig eftir boltanum í leiknum við Boston í nótt. AFP

Miami Heat náði í nótt 2:0 forystu í úrslitaeinvígi Austurdeildar NBA í körfuknattleik gegn Boston Celtics en annar spennuleikur liðanna í Disneylandi í Orlando endaði 106:101.

Miami hefur þar með unnið tíu af ellefu leikjum sínum í úrslitakeppninni og með Bam Adebayo í aðalhlutverki sneri liðið leiknum í nótt sér í hag í þriðja leikhluta með því að skora 37 stig gegn 17. Boston hafði verið yfir í hálfleik, 60:47.

Adebayo skoraði 21 stig fyrir Miami og tók 10 fráköst en Goran Dragic var stigahæstur hjá liðinu með 25 stig. Duncan Robinson skoraði 18 og Jimmy Butler var drjúgur seinni hluta leiksins og skoraði 14 stig.

Kemba Walker skoraði 23 stig fyrir Boston og þeir Jayson Tatum og Jaylen Brown gerðu 21 stig hvor.

Heyra mátti mikinn hávaða úr búningsklefa Boston eftir leikinn og fréttamaður ESPN segir að Marcus Smart hafi öskrað á samherja sína áður en hann hafi rokið út úr klefanum með blótsyrði á vörum. 

Leikmenn liðsins og þjálfari gerðu lítið úr því í viðtölum eftir leikinn. „Menn voru tilfinningaríkir eftir harðan leik,“ sagði þjálfarinn Brad Stevens. „Við erum að sjálfsögðu ekki ánægðir með að vera 0:2 undir en þetta var ekkert sérstakt, bara umræður um leikinn. Við erum klárir í þann næsta,“ sagði Jayson Tatum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert