Þetta var grútfúlt - góður leikur Elvars ekki nóg

Elvar Már Friðriksson á vítalínunni í leiknum í dag.
Elvar Már Friðriksson á vítalínunni í leiknum í dag. Ljósmynd/Sveinn Helgason

Elvar Már Friðriksson var í aðalhlutverki hjá Siauliai í fyrsta heimaleik sínum með liðinu í litháísku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag en lið hans beið ósigur með minnsta mögulega mun.

Siauliai var yfir nánast allan tímann en gestirnir í Pieno Zvaigzdes skoruðu þriggja stiga körfu í blálokin, þegar 3 sekúndubrot voru eftir á klukkunni, og unnu leikinn, 81:80.

Elvar var stigahæstur í sínu liði með 19 stig, átti flestar stoðsendingar, 10 talsins, og tók 6 fráköst. Hann var með flesta framlagspunkta, 28, og lék mest í liði Siauliai, eða í tæpar 35 mínútur af 40.

Elvar Már Friðriksson ræðir við dómara leiksins í dag.
Elvar Már Friðriksson ræðir við dómara leiksins í dag. Ljósmynd/Sveinn Helgason


Elvar var að vonum svekktur þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leikinn. „Þetta var grútfúlt. Við vorum með yfirhöndina allan leikinn en lentum svo undir í þrjú sekúndubrot. Þetta var mjög svekkjandi," sagði Elvar.

Leikurinn var harður og skemmtilegur, vel tekist á, en Elvar er staðráðinn í að gera betur í næstu leikjum.

„Ég barðist vel og fann liðsfélaga í góðum færum, en skotin fóru ekki öll niður því ég var orðinn þreyttur í lokin og þau voru of stutt. Ég þarf bara að koma mér í betra leikform og setja þessi skot niður," sagði Elvar.

Elvar Már Friðriksson var ekki brosmildur í leikslok enda um …
Elvar Már Friðriksson var ekki brosmildur í leikslok enda um svekkjandi ósigur að ræða. Ljósmynd/Sveinn Helgason


Hann var driffjöðrin í liði Siauliai í dag, algjörlega óhræddur við að vaða inn í vörn andstæðinganna og tók nokkur mikilvæg fráköst. Elvar er með mikinn hraða og sprengikraft og verður greinilega lykilmaður í liðinu í vetur, í þessari hörkudeild í Litháen þar sem körfubolti er þjóðaríþróttin, enda hafa Litháar fagnað Evrópumeistaratitli, einmitt með núverandi þjálfara Elvars við stjórnvölinn.

Aðeins 482 áhorfendur fengu að vera í 7.000 manna höll Siauliai í dag vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og minnst varð að vera eitt autt sæti á milli manna. Áhorfendur voru hitamældir, skyldaðir til að vera með andlitsgrímur og stórum hlutum hallarinnar var lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert