LeBron dró Lakers með sér í enn eitt úrslitaeinvígið

LeBron James fagnar með liðsfélögum sínum eftir sigurinn í nótt.
LeBron James fagnar með liðsfélögum sínum eftir sigurinn í nótt. AFP

LeBron James er kominn í úrslit NBA-deildarinnar í körfuknattleik í níunda skipti á tíu árum og hann dró Los Angeles Lakers með sér þangað í nótt með stórleik í sjötta leik liðsins gegn Denver Nuggets í úrslitum Vesturdeildar NBA í Disneylandi í Orlando.

Lakers vann leikinn 117:107, einvígið þar með 4:1, og mætir annaðhvort Miami Heat eða Boston Celtics í úrslitaeinvíginu. 

LeBron var óstöðvandi en hann skoraði 38 stig og tók 16 fráköst en átti auk þess tíu stoðsendingar þannig að hann náði þrefaldri tvennu. Anthony Davis var einnig drjúgur að vanda og skoraði 27 stig og þeir Danny Green og Alex Caruso 11 hvor.

Nikola Jokic og Jerami Grant skoruðu 20 stig hvor fyrir Denver og Jamal Murray 19.

LeBron James hefur þrisvar orðið NBA-meistari, 2012 og 2013 með Miami Heat og 2016 með Cleveland Cavaliers, en sex sinnum hefur hann beðið lægri hlut með liði sínu í úrslitum. Í fyrra komst hann ekki þangað með Lakers og missti þá af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í fjórtán ár.

Hið sigursæla félag Lakers hefur ekki unnið meistaratitilinn í tíu ár en sinn sextánda og síðasta meistaratitil til þessa vann liðið árið 2010. Aðeins Boston hefur unnið oftar, sautján sinnum, síðast 2008.

mbl.is