Tvö úrvalsdeildarlið í sóttkví

Úr leik liðanna á síðustu leiktíð.
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir leikmenn meistaraflokksliða KR og Keflavíkur í körfuknattleik eru farnir í sóttkví vegna kórónuveirusmits. Liðin mættust í fyrstu umferð Dominos-deildar kvenna í vikunni.

Liðin mættust í Keflavík síðasta miðvikudag þar sem heimakonur unnu 114:72-sigur en Karfan.is segir nú frá því að leikmaður hjá öðru liðinu hefur verið greindur með veiruna. Því eru allir leikmenn farnir í sóttkví og búið er að fresta næsta leik beggja liða. KR átti að heimsækja Val og Keflavík átti að mæta Skallagrím í Borgarnesi næsta miðvikudag.

Ekki liggur fyrir hversu lengi leikmennirnir þurfi að vera í sóttkví eða hvort þarnæstu leikir liðanna geti farið fram. Sem stendur eru viðureignir Fjölnis og Vals og Keflavíkur og Snæfells enn á dagskrá þann 3. október.

Uppfært 13:11: KKÍ hefur nú gefið út tilkynningu og staðfest að umrædd lið eru í sóttkví og að næstu leikjum þeirra hefur verið frestað. Kemur einnig fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um leikina sem eiga að fara fram 3. október.

mbl.is