Snæfell sendir ekki lið í vetur

Hlynur Bæringsson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Sean Burton fagna bikarsigri …
Hlynur Bæringsson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Sean Burton fagna bikarsigri Snæfells árið 2010. mbl.is/Golli

Snæfell úr Stykkishólmi hefur hætt við þátttöku í 1. deild karla í körfuknattleik í vetur en félagið tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að leggja meistaraflokk karla niður tímabundið.

Eftirfarandi tilkynning var birt á samskiptamiðlum félagsins:

Körfuknattleiksdeild Snæfells tilkynnir, með sorg í hjarta en hag félagsins í huga, að ákveðið hefur verið að leggja meistaraflokk karla niður tímabundið.
Ákvörðunin var erfið, eins og gefur að skilja, en við höfum átt í miklum erfiðleikum með að manna liðið og erfiðleikar í rekstri hjálpa ekki.
KKD. Snæfells á því engra annarra kosta völ en að draga liðið úr keppni.

Snæfell hefur um áratugaskeið verið með gríðarlega sterka körfuboltahefð og karlalið félagsins varð Íslands- og bikarmeistari árið 2010. Liðið féll úr úrvalsdeildinni árið 2017 og hefur verið í basli við botn 1. deildar frá þeim tíma.

Kvennalið Snæfells mun halda sínu striki og spila í úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildinni, eins og áður og það hóf þar keppni í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert