Blikar notuðu ólöglegan leikmann gegn Val

Fanney Lind Thomas í leik með Breiðabliki á síðustu leiktíð.
Fanney Lind Thomas í leik með Breiðabliki á síðustu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

Deildarmeisturum Vals í körfuknattleik hefur verið úrskurðaður 20:0-sigur gegn Breiðabliki en liðin mættust í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna, Dominos-deildarinnar, í Smáranum í Kópavogi hinn 23. september síðastliðinn.

Breiðablik vann leikinn, 71:67, en Fanney Lind Thomas sem leikur með Breiðabliki átti að taka út leikbann í leiknum og því hefur Valskonum verið úrskurðaður sigur.

Fanney skoraði 4 stig í leiknum og tók þrjú fráköst en miðvikudaginn 11. mars 2020 var hún úrskurðuð í eins leiks bann vegna tveggja tæknivillna og mótmæla við dómara.

Stuttu síðar var tímabilinu aflýst og hún tók því aldrei út leikbannið á síðustu leiktíð. Samkvæmt reglum KKÍ færist leikbannið því yfir á næstu leiktíð og var hún því ólögleg í leik Breiðabliks og Vals.

Þá þarf Breiðablik einnig að greiða 250.000 króna sekt fyrir að nota Fanneyju Lind í umræddum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert