Körfuboltanum frestað í tólf daga

Ekkert verður leikið á Íslandsmótinu næstu tólf daga.
Ekkert verður leikið á Íslandsmótinu næstu tólf daga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Körfuknattleikssamband Íslands sendi rétt í þessu frá sér tilkynningu um að farið yrði að tilmælum sóttvarnalæknis og almannavarna og öllu mótahaldi í öllum aldursflokkum yrði frestað næstu tólf dagana, eða til 19. október.

Á þessu tímabili áttu að fara fram tvær umferðir í úrvalsdeildum karla og kvenna, Dominos-deildunum, þar af heil umferð í kvennadeildinni í kvöld.

Í tilkynningu KKÍ segir:

Vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við útbreiðslu COVID-19 og tilmæla sóttvarnalæknis og almannavarna um að gert verði hlé á íþróttastarfi ákvað stjórn og mótanefnd KKÍ á fundi sínum í dag að fresta mótahaldi í öllum aldursflokkum vegna almannahagsmuna til og með 19. október og endurmeta stöðu mála að þeim tíma liðnum. Mælst er til þess af sóttvarnalækni að íþróttastarf verði stöðvað og með þessari ákvörðun vill KKÍ leggja sitt lóð á vogarskálarnar í varnarbaráttunni gegn faraldrinum. 

Á tímum sem þessum, þegar kallað hefur verið eftir samstöðu þjóðarinnar, telja stjórn, mótanefnd og starfsfólk KKÍ réttast að ganga í takt við tilmæli sóttvarnalæknis og almannavarna í ljósi þess að ekki hafa komið fram skýr fyrirmæli í dag frá hinu opinbera. 

Beðið er eftir nánari útskýringum heilbrigðisráðuneytis á útfærslum æfinga og mun skrifstofa KKÍ senda frekari upplýsingar þegar þær berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert