Körfuboltalandsliðin missa af heimaleikjunum

Karlalandsliðið fer til Slóvakíu.
Karlalandsliðið fer til Slóvakíu. mbl.is/Hari

Karla- og kvennalandslið Íslands í körfuknattleik leika ekki heimaleiki í undankeppnum stórmótanna í nóvembermánuði eins og til stóð.

Þess í stað fer kvennalandsliðið til Grikklands og karlalandsliðið til Slóvakíu þar sem öll liðin í viðkomandi riðlum koma saman og leika fyrri umferðina á nokkrum dögum.

Kvennalandslið Íslands átti að leika við Slóveníu á heimavelli 12. nóvember og Búlgaríu á útivelli 15. nóvember í undankeppni EM. Þess í stað fer liðið til Heraklion í Grikklandi og mætir þar Slóvenum, Búlgörum og Grikkjum dagana 8. til 15. nóvember.

Kvennalandsliðið fer til Grikklands.
Kvennalandsliðið fer til Grikklands. mbl.is/Hari

Karlalandsliðið átti að leika tvo heimaleiki í forkeppni HM 2023, gegn Lúxemborg 26. nóvember og gegn Kósóvó 29. nóvember. Þess í stað verður farið til Bratislava og leikið þar gegn Lúxemborg, Kósóvó og Slóvakíu dagana 23. til 29. nóvember.

Frá þessu er greint á heimasíðu FIBA en Alþjóða körfuknattleikssambandið samþykkti í  september að standa að þessum mótum á þennan hátt vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, í stað þess að leika á hefðbundinn hátt, heima og heiman.

Seinni umferð riðlanna verður leikin í febrúarmánaði á svipaðan hátt, samkvæmt áætlun FIBA.

mbl.is