Miami hélt úrslitaeinvíginu lifandi

Jimmy Butler og LeBron James fóru á kostum í nótt.
Jimmy Butler og LeBron James fóru á kostum í nótt. AFP

Los Angeles Lakers tókst ekki að tryggja sér sinn fyrsta titil í áratug í NBA-körfuboltanum vestanhafs í nótt. Mættust Lakers og Miami Heat þá í fimmta sinn í úrslitaeinvíginu og tókst Miami að vinna 111:108-sigur eftir mikla spennu og minnka muninn í einvíginu í 3:2. 

Var leikurinn hnífjafn og spennandi allan tímann og var Lakers með 108:107-forskot þegar tæp mínúta var eftir. Skoraði Miami fjögur síðustu stigin og tryggði sér sætan sigur. 

LeBron James og Jimmy Butler fóru fyrir sínum liðum; James skoraði 40 stig, tók 13 fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Lakers og Butler gerði 35 stig, tók 12 fráköst og gaf 11 stoðsendingar fyrir Miami Heat. 

Mætast liðin í sjötta sinn annað kvöld og fær Lakers þá annað tækifæri til að vinna sinn 17. meistaratitil og jafna Boston Celtics sem sigursælasta lið deildarinnar frá upphafi.

mbl.is