Heillaóskir frá ekkju Kobes

Margir stuðningsmenn hópuðust að listaverkinu af Kobe Bryant og Gigi …
Margir stuðningsmenn hópuðust að listaverkinu af Kobe Bryant og Gigi dóttur hans eftir sigur Lakers í nótt. AFP

Vanessa Bryant, ekkja körfuboltagoðsagnarinnar Kobes Bryants, hefur sent liði Los Angeles Lakers heillaóskaskeyti eftir sigurinn á Miami Heat í nótt þar sem Lakers  tryggði sér sinn fyrsta NBA-meistaratitil í tíu ár.

Kobe Bryant varð fimm sinnum meistari með Lakers en hann og 13 ára dóttir þeirra Vanessu, Gianna Bryant, létust í þyrluslysi í Kaliforníu í janúar á þessu ári.

„Áfram Lakers! Vildi að Kobe og Gigi væru hérna til að sjá þetta,“ skrifaði Vanessa Bryant á Instagram og birti þar mynd af eiginmanni sínum og Rob Pelinka, framkvæmdastjóra Lakers.

„Til hamingju, P frændi! Til hamingju Lakers, Kobe hafði rétt fyrir sér, RP,“ bætti hún við. 

Lakers hefur tileinkað Kobe Bryant meistaratitilinn en LeBron James, Anthony Davis og liðsforsetinn Jeanie Buss minntust hans í ávörpum eftir leikinn í nótt.

Bakvörðurinn reyndi Rajon Rondo, sem lék stórt hlutverk í sigri Lakers í nótt, sagði að Bryant horfði nú brosandi niður til liðsins. „Það hefur að sjálfsögðu lengi verið í huga mér að vinna þennan titil fyrir Kobe. Hann var körfuboltasnillingur, einn klókasti maður sem ég spilaði með. Ég fékk að spila gegn honum þegar ég var 21 árs en frammistaða hans og saga segja allt sem þarf. Það er frábært að hafa getað lokað hringnum með því að sigra honum til heiðurs, dóttur hans til heiðurs, ég veit að hann horfir brosandi niður til okkar,“ sagði Rondo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert