Lakers meistarar

LeBron James keyrir á körfuna og Goran Dragic reynir að …
LeBron James keyrir á körfuna og Goran Dragic reynir að verjast. AFP

Los Angeles Lakers tryggðu sér í nótt meistaratitilinn í bandaríska körfuboltanum með sannfærandi 106:93-sigri á Miami Heat með sínum fjórða sigri í sjötta leik úrslitaeinvígisins milli liðanna.

Mun meiri munur var á liðunum en lokatölurnar segja til um og fór munurinn yfir 30 stig. Þetta er fjórði meistaratitill LeBron James, sem lék af miklum krafti og sýndi hvað eftir annað að hann er besti leikmaður okkar tíma.

Miami Heat sigraði naumlega í viðureign liðanna aðfaranótt laugardags og var í stöðu til að jafna einvígið þrjú þrjú með sigri í nótt, en lenti snemma í vandræðum í leiknum og tókst aldrei að komast í gang. 

Anthony Davis átti frábæran leik fyrir Lakers (19 stig og 15 fráköst) og Rajon Rondo (19 stig og fjórar stoðsendingar) var einnig stórkostlegur. James brosti breitt þegar hann var tekinn út af þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Hann lék í nótt sinn 260. leik í úrslitakeppni í NBA og var með þrefalda tvennu, 28 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar. Titlana fjóra hefur hann unnið með þremur liðum, Miami Heat, Cleveland Cavaliers og nú Lakers. Á tíu árum hefur hann níu sinnum komist í úrslit í deildinni. Þetta var 17. titill Lakers og hefur liðið nú unnið jafn marga titla og Boston Celtics.

Í liði Miami var Bam Adebayo atkvæðamestur með 26 stig, en það var sem allur vindur væri úr Jimmy Butler, sem sýndi og sannaði í úrslitakeppninni að hann er einn besti leikmaður deildarinnar, og hann var aðeins með 12 stig. 

Úrslitakeppnin var leikin við afar sérstæðar kringumstæður. Leikmenn voru í einangrun alla keppnina, sem fór fram í Lake Buena Vista í Flórída og tók fjóra mánuði. Í upphafi var venjulega leiktímabilið klárað og því næst leiddu 16 lið saman hesta sína í úrslitakeppninni. Það var orðið ansi fámennt í einangruninni þegar keppni lauk og verða leikmenn ugglaust frelsinu fegnir.

mbl.is