Veiran setur strik í reikninginn

Martin Hermannsson á að leika næst gegn Barcelona en leikurinn …
Martin Hermannsson á að leika næst gegn Barcelona en leikurinn gegn Zenit mun ekki fara fram á fimmtudag. mbl.is/Árni Sæberg

Evrópuleik hjá Valencia, liði Martins Hermannssonar, hefur verið frestað vegna smits í herbúðum andstæðinganna. 

Valencia átti að taka á móti rússneska stórliðinu Zenit Petursburg í Euroleague-keppninni í körfuknattleik á Spáni næsta fimmtudag. 

Kórónuveiran hefur stungið sér niður í herbúðum rússneska liðsins svo um munar en meira en helmingur leikmanna liðsins hefur greinst jákvæður með veiruna. Liðið getur alla vega ekki spilað næstu tvo leiki og sá síðari er á móti Valencia. Eurohoops greinir frá þessu í dag. 

Rússarnir hafa farið fram á að leikjunum sé frestað en málið verður tekið sérstaklega fyrir hjá Euroleague. Í bráðabirgðareglum varðandi veiruna segir að takist liði ekki að tefla fram átta leikmönnum vegna ástæðna sem tengjast veirunni þá tapi liðið leiknum 20:0. 

Zenit lék nýlega gegn Barcelona en Barcelona er einmitt næsti andstæðingur Valencia og því spurning hvort leikmenn Barcelona hafi smitast. 

mbl.is