Sigur eftir strit í áratug

LeBron James varð meistari í fjórða sinn á dögunum, en …
LeBron James varð meistari í fjórða sinn á dögunum, en nú með Los Angeles Lakers. AFP

Los Angeles Los Angeles Lakers vann sautjánda NBA-meistaratitil sinn á sunnudagskvöld í kúlunni í Orlando eftir stórsigur á Miami Heat, 106:93, í sjötta leik liðanna í lokaúrslitum deildarinnar. Einvíginu lauk þannig 4:2. Lakers hefur þar með jafnað titlamet Boston Celtics, en Boston vann þrettán af sínum meistaratitlum áður en deildin sameinaðist gömlu ABA-deildinni í núverandi fyrirkomulag árið 1976. Lakers hefur unnið ellefu titla síðan deildin stækkaði og gerði erfiðara fyrir lið að vinna ár eftir ár með launaþaki og frelsi leikmanna til að skipta um lið eftir að hafa uppfylt samninga sína.

Þetta var í 33. sinn sem Lakers var í úrslitarimmunni, en Boston kemur næst með 21. Með því að jafna tölu meistaratitla geta áhangendur Lakers svo sannarlega sagt að þeirra lið sé nú með besta árangur allra liða í sögu deildarinnar.

Þetta var einnig fjórði titill LeBron James með þremur liðum og má segja að hann sé kominn í hóp 4-5 bestu leikmanna deildarinnar frá upphafi, þótt margir NBA-spekúlantar líti á Michel Jordan sem besta leikmanninn frá upphafi. Aðeins fjórir NBA-leikmenn hafa unnið meistaratitla með þremur liðum; John Salley, Robert Horr, og Danny Green. James er nú kominn í þennan hóp. Allir þessir leikmenn unnu þriðja titilinn hjá Lakers.

Betra liðið fer í gang

Lakers virtist hafa þessa rimmu í sínum höndum eftir að hafa náð 3:1-forystu og bjuggust flestir við að titillinn yrði innsiglaður á föstudag í fimmta leiknum, enda Lakers með betra lið. Jimmy Butler og félagar voru hins vegar ekki tilbúnir að fara í frí og Miami vann þann leik, 111:108, á lokasekúndunum. Svo leit út að keppnisskapið vantaði hjá Lakers í þeim leik og 3:2-staða var allt í einu í einvíginu. Butler lék nær allar leikmínútur fjórða og fimmta leiksins, og spurningin var hvort hann gæti gert það að nýju í þeim sjötta.

Frank Vogel, þjálfari Lakers, ákvað að skipta út í byrjunarliðinu í sjötta leiknum með því að setja bakvörðinn Alex Caruso í stað miðherjans Dwights Howards. Við það opnaðist sóknarleikurinn hjá Lakers, á sama tíma sem svo virtist að keppnisskapið hefði blossað upp aftur.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert