Hársbreidd frá tvennunni

Tryggvi Snær Hlinason í leik með Zaragoza.
Tryggvi Snær Hlinason í leik með Zaragoza. Ljósmynd/FIBA

Zaragoza vann 98:86-heimasigur á Murcia í efstu deild Spánar í körfubolta í dag. Landsliðsmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason lék mjög vel með Zaragoza. 

Lék Tryggvi í rúmar 25 mínútur og skoraði tíu stig og tók níu fráköst. Brenndi hann ekki af einu einasta skoti í leiknum. Aðeins Dylan Ennis lék meira en Tryggvi hjá Zaragoza eða tæplega 31 mínútu. 

Sigurinn var kærkominn hjá Tryggva og félögum eftir fjóra tapleiki í röð. Er liðið í fjórtánda sæti deildarinnar með fjögur stig. 

Tryggvi og samherjar hans halda til Póllands í vikunni og mæta Lublin í Meistaradeildinni á miðvikudaginn kemur. 

mbl.is