Jón Axel byrjar vel í Þýskalandi

Jón Axel Guðmundsson í landsleik.
Jón Axel Guðmundsson í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmundsson landsliðsmaður í körfuknattleik lét mikið að sér kveða í fyrsta mótsleiknum með sínu nýja liði, Fraport Skyliners, í þýsku bikarkeppninni í dag.

Fraport sótti lið Göttingen heim en í bikarnum leika sextán bestu lið Þýskalands í fjórum riðlum og sigurlið riðlanna komast í undanúrslit.

Göttingen vann all öruggan sigur, 79:64, en Jón Axel, sem undanfarin ár hefur gert það gott með Davidson í bandaríska háskólakörfuboltanum, var í aðalhlutverki hjá sínu liði. Hann var stigahæstur hjá Fraport með 20 stig, skoraði úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum, tók 5 fráköst og átti tvær stoðsendingar. Grindvíkingurinn lék í tæpar 26 mínútur.

Vechta og Giessen eru hin tvö liðin í riðlinum og Vechta vann leik þeirra í gær, 99:85. Fraport mætir báðum um næstu helgi.

mbl.is