Lue er ætlað að vinna titilinn

Tyronn Lue ræðir við Doc Rivers þáverandi þjálfara Clippers sem …
Tyronn Lue ræðir við Doc Rivers þáverandi þjálfara Clippers sem lét af störfum á dögunum. AFP

Þrjú NBA-lið hafa ráðið nýja þjálfara, Los Angeles Clippers, Indiana Pacers og New Orleans Pelicans. 

Tyronn Lue tekur við Clippers sem er eitt sterkasta lið deildarinnar. Lið sem aldrei hefur orðið meistari en þangað er stefnan sett. Lue stýrði Cleveland Cavaliers síðast en var sagt upp störfum eftir slæma byrjun tímabilið 2018-2019. Hann kom til Clippers í fyrra og gerðist þá aðstoðarþjálfari. 

Gamla brýnið Stan Van Gundy tekur við Pelicans en þar ef efniviður til staðar eftir að félagið valdi Zion Williamson í fyrsta valrétti í nýliðavalinu í fyrra. Van Gundy þjálfaði síðast Detroit frá 2014-2018. 

Nate Bjorkgren er tekinn við sem þjálfari Indiana Pacers en hann hefur ekki stýrt NBA-liði áður. Hann var hins vegar einn af aðstoðarþjálfurum Toronto Raptors þegar liðið varð meistari. 

Stan Van Gundy.
Stan Van Gundy. AFP
mbl.is