Nú er að þétta raðirnar

Hannes S. Jónsson ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Hannes S. Jónsson ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. mbl.is//Hari

„Núna treystum við því að við förum öll eftir þessum hertu sóttvarnareglum og að við stöndum saman í þessu,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við mbl.is.

Stjórnvöld kynntu í dag nýjar hertar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins og mun allt íþróttastarf leggjast af næstu tvær til þrjár vikurnar.

Þetta þýðir að lið mega hvorki æfa né keppa en stefnt var að því að keppni í afreksíþróttum í landinu myndu hefjast með eðlilegum hætti í kringum 10. nóvember.

„Ég tel að það sé afar mikilvægt að allir hlýði þeim reglum sem settar hafa verið svo við getum hafið starfið okkar aftur í kringum 17. nóvember.

Þegar allt kemur til alls snýst þetta um að geta hafið keppni og æfingar sem fyrst en númer eitt tvö og þrjú þurfum við að ná utan um þessa veiru og ég tel, að með þessum aðgerðum, eigi það að takast,“ sagði Hannes.

Síðast var leikið í úrvalsdeild karla hinn 6. október síðastliðinn.
Síðast var leikið í úrvalsdeild karla hinn 6. október síðastliðinn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Getum haldið veirunni í skefjum

Hannes hefur kallað eftir stuðningi frá ríkisvaldinu að undanförnu og á hann von á því að þau mál skýrist síðar í dag.

„Það er mjög mikilvægt núna að íþróttastarfið í landinu fái góðan fjárhagslegan stuðning því það hefur orðið fyrir gríðarlega miklu tekjutapi.

Ég treysti því og trúi að okkur verði tilkynnt um það síðar í dag. Ef ekki mun ekki fara vel fyrir íþróttahreyfingunni.

Við erum góð saman í liði og núna er að þétta raðirnar. Við eigum að geta haldið veirunni í skefjum en að sama skapi er líka mikilvægt að fólk átti sig á því að við gætum alveg þurft að hafa hana hangandi yfir okkur næstu mánuðina.“

Skallagrímur og Keflavík áttu að mætast í úrvalsdeild kvenna í …
Skallagrímur og Keflavík áttu að mætast í úrvalsdeild kvenna í Borgarnesi á morgun en þeim leik hefur nú verið frestað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott að eiga góða að

Formaðurinn viðurkennir að það hafi verið mikið að gera hjá honum undanfarnar vikur og ekki sér fyrir endann á því.

„Það verða margir fundir hjá forystumönnum íþróttarinnar í dag. Stjórn KKÍ mun svo koma saman í fyrramálið þegar að við erum komin með betri heildarmynd á þetta. Við munum vinna vel um helgina.

Við munum svo fara strax í að ræða við aðildarfélögin okkar í framhaldi af því en við þurfum líka að fá smá andrými til að vinna með þetta og út frá þeim upplýsingum sem við fáum til okkar í dag.

Maður vaknar snemma og sofnar seint þessa dagana. Maður gerir ýmislegt til þess að halda sjó en þá er líka gott að eiga góða fjölskyldu og góða að til þess að ræða málin þegar í harðbakka slær,“ bætti Hannes við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert