Eina þjóðin sem mótmælir

Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. Haraldur Jónasson/Hari

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segir að Ísland sé eina landið sem hafi mótmælt því að leikir í undankeppni EM í körfuknattleik kvenna færu fram í þessum mánuði á grundvelli ótta um kórónuveirusmit.

Forráðamenn Alþjóða körfuknattleikssambandsins, FIBA, höfðu áður lagt upp með að leikirnir færu fram í september og þegar það reyndist ekki hægt, að þeir myndu fara fram í október. Að lokum var ákveðið að þeir færu fram í nóvember og mótmæltu forráðamenn KKÍ öllum þessum fyrirætlunum FIBA um leikdaga.

Íslenska kvennaliðið dvelur nú í svokallaðri „búbblu“ á hóteli á Krít í Grikklandi og er Hannes með í för. Hann segir það viss viðbrigði að dvelja í „búbblu“ með tilheyrandi ferðatakmörkunum þar sem við Íslendingar búum ekki við algjört útgöngubann, líkt og raunin er í Grikklandi.

„Við erum í „búbblu sem þýðir það að við erum bara á hótelinu og fáum í rauninni ekki að fara neitt. Við erum með okkar eigin rútu, okkar eigið allt. Það kemur enginn annar nálægt því en við. Við erum síðan í æfingasal og keppnishúsinu þegar við keppum. Við eigum engin samskipti við hin liðin hér á hótelinu, það er passað mjög vel upp á það, að þessi lið hittist ekki neitt. Auðvitað notum við sömu stiga en við erum á einni hæð, næsta lið á annarri hæð o.s.frv. Það er passað vel upp á að fólk sé ekki að hittast eða vera mikið saman á sama staðnum, nema í leiknum sjálfum,“ útskýrir Hannes.

„Búbblan“ ekki 100 prósent örugg

Kórónuveirusmit hafa komið upp í herbúðum allra þriggja andstæðinga Íslands. Það er þrátt fyrir að öll liðin séu í „búbblu“ og allir prófaðir reglulega. Lagt var upp með að prófa leikmenn og fylgdarlið annan hvern dag en það á núna einungis við um íslenska liðið.

Guðbjörg Sverrisdóttir í leiknum gegn Slóveníu á fimmtudag.
Guðbjörg Sverrisdóttir í leiknum gegn Slóveníu á fimmtudag. Ljósmynd/FIBA

„Af því að það komu upp smit í búbblunni á þriðjudaginn eru hin liðin prófuð á hverjum degi og við annan hvern dag. Eins og við höfum verið að reyna að benda á, þessi búbbla er nú ekki öruggari en það að þrátt fyrir allt þetta þá komu upp smit í hinum þremur liðunum. Við erum fjögur lið hér í þessari búbblu á þessu hóteli og það koma upp smit í hinum liðunum og það segir okkur að búbblan er ekki 100 prósent örugg,“ segir Hannes.

Erfitt að synda einn á móti straumnum

„Við höfum mótmælt þessu mjög mikið til FIBA að halda þessum landsleikjaglugga. Ég hefði alveg viljað vera heima hjá mér. Ég hefði alveg viljað sleppa því að fara í þetta þetta ferðalag. Ég hefði alveg viljað sleppa því að setja okkur, allan þennan 20 manna hóp, í þessa stöðu að þurfa að vera hérna. Þar af leiðandi erum við ofboðslega ósátt við FIBA að halda þessu áfram. Við erum eina þjóðin af fimmtíu og einni innan FIBA Europe sem hefur mótmælt því að halda þessu svona gangandi,“ segir Hannes.

„Eftir að þessi smit komu upp hér í búbblunni á þriðjudaginn þá mótmæltum við enn einu sinni og sendum enn eitt formlega bréfið til stjórnar FIBA en við fengum enga aðra þjóð í lið með okkur,“ bætir hann við.

Smit hafa komið upp í fleiri löndum þar sem aðrir riðlar undankeppninnar eru spilaðir með sama fyrirkomulagi. „Það eru níu riðlar spilaðir í samtals sex búbblum víðsvegar um Evrópu og það hafa komið upp smit í samtals fjórum þeirra. En við vorum eina þjóðin sem mótmælti því að spila því við höfðum áhyggjur af smitum. Við virðumst vera eyland þarna eins og við erum á landakortinu. Það er rosalega erfitt þegar þú ert einn að synda á móti straumnum. Við finnum það til dæmis hérna frá starfsfólki FIBA og öðrum sem eru að vinna í kringum þetta að það er litið á okkur, eftir þessa nýjustu kvörtun okkar, eins og við séum eitthvað skrítin. Fólki finnst þetta bara vera óþarfa væl,“ segir Hannes.

Afar stoltur

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er góður andi innan liðsins og passa leikmenn og fylgdarlið mjög vel upp á að fara eftir settum reglum í „búbblunni.“ „Við fórum í próf í gærmorgun og fengum svo þær fréttir að það eru allir neikvæðir. Við erum ennþá neikvæð og ætlum okkur að vera það áfram. Ég er afar stoltur af bæði okkar stelpum og fylgdarliði því að þau hafa haldið sig við þær reglur sem eru í gangi.“

„Það er stundum sagt um okkur Íslendinga að við eigum erfitt með að fara eftir reglum og gerum svolítið grín að öðrum þjóðum, t.d. Evrópuþjóðum, að þar fari allir eftir reglum en ekki við. En ég verð að segja það, og ég held ég tali fyrir alla íþróttahreyfinguna á Íslandi hvað þetta varðar, að við erum mjög dugleg að fara eftir þessum reglum,“ segir Hannes að lokum.

Ísland mætir Búlgaríu í undankeppni EM í körfuknattleik kvenna í dag og hefst leikurinn klukkan 15:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert