Náði meti af Arnari í Danmörku

Arnar Freyr Jónsson leitar að samherja í leik með Keflavík …
Arnar Freyr Jónsson leitar að samherja í leik með Keflavík gegn Stjörnunni. mbl.is/Golli

Arnar Freyr Jónsson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur og Grindavíkur, í úrvalsdeildinni í körfuknattleik átti met í dönsku úrvalsdeildinni í átta ár. 

Netmiðillinn Karfan.is vekur athygli á þessu í áhugaverðri frétt. Þar kemur fram að met Arnars yfir flestar stoðsendingar í leik í dönsku deildinni hafi verið slegið á dögunum þegar Marius Sörensen gaf 25 stoðsendingar á samherja sína í leik með Bears Academy. 

Er það ævintýralega mikið og stórbætti hann metið en Arnar gaf 16 stoðsendingar í leik með Árósum gegn Álaborg árið 2012. 

Uppfært kl 11:42: Mbl.is barst ábending sem setur fréttina í betra samhengi. Leikinn sem Sörensen spilaði þurfti að þríframlengja. Leikinn sem Arnar Freyr spilaði þurft að framlengja einu sinni. 

mbl.is