Það er eins og við séum hræddar

Sara Rún Hinriksdóttir í baráttunni gegn Búlgaríu.
Sara Rún Hinriksdóttir í baráttunni gegn Búlgaríu. Ljósmynd/FIBA

„Þetta var flug til Aþenu þar sem við vorum í sex tíma og svo til London og þaðan með lest til Leicester,“ sagði þreytt Sara Rún Hinriksdóttir, landsliðskona í körfubolta, í samtali við mbl.is í gærkvöldi. Sara var nýkomin heim til Leicester á Englandi úr landsliðsferð á Krít þar sem hún lék með Íslandi gegn Slóveníu og Búlgaríu í undankeppni EM. Sara stundar mastersnám í Leicester meðfram því að spila með Leicester Riders í efstu deild breska körfuboltans.

Ísland mátti þola 58:94-tap fyrir Slóveníu á fimmtudaginn var og 53:74-tap fyrir Búlgaríu á laugardag. Ísland vann seinni hálfleikinn gegn Búlgaríu með tveimur stigum en erfiður fyrri hálfleikur varð liðinu að falli. Sara segir andlegu hliðina vera að plaga íslenska liðið gegn erfiðum andstæðingum.

Eins og við séum hræddar

„Skotin okkar voru ekki alveg að fara niður á móti þrusugóðu liði. Við hefðum alveg getað unnið þær og við sýndum það með því að vinna seinni hálfleikinn. Við höfum glímt við sama vesenið í 3-4 ár, eða síðan ég byrjaði með þessu landsliði, það er eins og við séum hræddar. Þetta eru þrusugóðar stelpur sem við vorum að spila á móti en þegar upp er staðið eru þetta bara tvær körfur, tíu leikmenn og bolti. Það er eins og við gleymum því stundum. Ég man þegar ég kom fyrst inn í landsliðsglugga eftir háskólann, þá átti ég erfitt með að koma mér inn í leikinn því ég var svo stressuð.

Íslenska liðið syngur þjóðsönginn á Krít.
Íslenska liðið syngur þjóðsönginn á Krít. Ljósmynd/FIBA

Leikurinn á móti Búlgaríu byrjaði þannig, við gerðum ekki þá hluti sem við ætluðum okkur og þá fóru skotin ekki ofan í. Þegar við byrjuðum almennilega fórum við að spila þrusuvörn, tala betur saman og setja niður þrista. Við gerðum það í seinni hálfleikinn og unnum hann. Þetta er rosalega mikið í hausnum á okkur. Það er eins og við þorum ekki alveg að gera það sem við erum vanar að gera.“

Flestir leikmenn íslenska liðsins voru að æfa og spila körfubolta í fyrsta skipti í nokkrar vikur, en ekkert hefur mátt æfa né keppa hér á landi vegna hertra aðgerða í baráttunni við kórónuveiruna. „Það hafði pottþétt einhver áhrif. Við höfðum bara 2-3 daga til að æfa vörnina sem við spiluðum. Á meðan höfðu önnur lið verið saman og fengið að æfa. Ég kenni því ekki um tapið, en það hafði pottþétt einhver áhrif.“

Var til í þessa pressu

Sara fór á kostum í leiknum gegn Búlgaríu og skoraði 31 stig, tók átta fráköst, gaf þrjár stoðsendingar, stal boltanum tvívegis og varði tvö skot. Fékk hún stærra hlutverk í fjarveru Helenu Sverrisdóttur og Hildar Bjargar Kjartansdóttur sem voru ekki með að þessu sinni en þær hafa verið bestu körfuknattleikskonur landsins síðustu ár. „Ég fékk í magann þegar ég vissi að Helena myndi ekki spila þar sem hún er ólétt. Það er mikill skellur því hún er algjör goðsögn. Ég fékk svo að vita nokkrum dögum fyrir þennan glugga að Hildur yrði ekki heldur með. Þær eru tveir bestu leikmenn sem við eigum. Mér finnst ég ekki hafa náð að sýna mitt rétta andlit síðustu ár með landsliðinu, en núna hafði ég enn meiri ástæðu til að sýna hvað ég get og reyna að fylla í þeirra skarð. Mér fannst ég verða að gera það og ég fann fyrir pressu, en ég var til í þessa pressu.“

Sara Rún stendur vörn gegn Búlgaríu.
Sara Rún stendur vörn gegn Búlgaríu. Ljósmynd/FIBA

Hata að tapa

Þrátt fyrir glæsilega frammistöðu var Sara ekki sérstaklega ánægð með leikinn þar sem liðið þurfti að sætta sig við tap. Hún segir aðalatriðið að Ísland eigi gott körfuknattleikslandslið og vill hún leggja sitt af mörkum til að gera það að veruleika.

„Ég hata að tapa og ég veit ekki hvort ég get verið stolt af þessum leik. Mig langar mest að við verðum geggjað lið. Ég vil hjálpa liðinu komast á næsta stig og við erum með leikmenn til þess. Það er eitthvað lítið sem vantar upp á og vonandi er það að koma hjá okkur. Það eru flottar stelpur í háskóla núna. Ef ég horfi til baka á leikinn þá gekk mér vel og ég var að skora en ég vil geta hjálpað liðinu meira til að ná árangri. Ég get gert mitt en mig langar að vera meiri leiðtogi og hjálpa liðinu að vinna leiki. Ég er sátt með mína frammistöðu en manni finnst maður alltaf geta gert betur.“

Bríet Sif Hinriksdóttir, tvíburasystir Söru, er einnig landsliðskona.
Bríet Sif Hinriksdóttir, tvíburasystir Söru, er einnig landsliðskona. Ljósmynd/FIBA

Hún mun áfram æfa og spila með Leicester á næstu vikum þrátt fyrir útgöngubann á Englandi. „Við erum heppnar og fáum að nota æfingaaðstöðuna í skólanum svo lengi sem ekkert kemur upp hjá okkur og við þurfum að fara í sóttkví,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir.

Fjallað er um landsleik Íslands og Búlgaríu í Morgunblaðinu sem kom út í morgun

mbl.is