Getur James farið fram úr Jabbar?

LeBron James.
LeBron James. AFP

Kareem Abdul Jabbar hefur í rúma þrjá áratugi verið stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi. Fyrir utan að vera frábær leikmaður þá spilaði kappinn fram á 42 ára aldur. 

Skoraði hann 38.387 stig fyrir Milwaukee Bucks og Los Angeles Lakers. Ljóst er að ekki er heiglum hent að ná þessu meti af Jabbar en Justinas Baltrusaitis lagst í útreikninga á því hvort raunhæft sé að LeBron James geti afrekað það og þá hversu fljótt. 

Greinina birtir hann á Safe Bettings Sites með rökstuðningi. Hann segir raunhæft að LeBron James nái metinu árið 2023 en hann vantar 4.147 stig eins og sakir standa. James er 35 ára og hefur skorað rúm 25 stig að meðaltali í leik. 

James hefur ekki farið undir 20 stig að meðaltali og haldi hann því og verði ekki fyrir meiðslum þá gæti hann náð metinu á næstu þremur árum. James hefur sloppið vel við meiðsli á ferlinum en var þó meiddur um tíma í fyrra. 

Svo er spurningin hvort James sleppi við meiðsli, hversu lengi hann kemur til með að spila og hvort verulega dragi úr stigaskorun með aldrinum. 

Kareem Abdul Jabbar var sæmdur æðstu orðu sem bandarískum ríkisborgurum …
Kareem Abdul Jabbar var sæmdur æðstu orðu sem bandarískum ríkisborgurum getur hlotnast undir lok síðasta ár. AFP
mbl.is