NBA-leikmenn funduðu með páfanum

Anthony Tolliver (t.h.) var einn þeirra NBA-leikmanna sem funduðu með …
Anthony Tolliver (t.h.) var einn þeirra NBA-leikmanna sem funduðu með páfanum. AFP

Fimm NBA-leikmenn í körfuknattleik ásamt aðilum frá leikmannasamtökum NBA funduðu með Frans páfa í Vatíkaninu í morgun. Þar voru félagsleg réttlætismál rædd.

Páfinn hafði frumkvæði að fundinum, þar sem hann vildi fræðast um það hvernig leikmenn í NBA-deildinni hefðu vakið athygli á mikilvægum félagsmálum og ójöfnuði og hvað leikmenn hefðu í hyggju í framtíðinni í tengslum við þessi mál.

Tóku forsvarsmenn leikmannasamtakanna vel í þessa hugmynd og var fundurinn skipulagður með litlum fyrirvara.

Leikmennirnir fimm sem voru með í för voru Kyle Korver, Sterling Brown, Jonathan Isaac, Anthony Tolliver og Marco Belinelli. Einnig var Michele Roberts, framkvæmdastjóri leikmannasamtakanna, hluti af hópnum.

Leikmenn NBA-deildarinnar vöktu athygli á ýmsum málefnum þegar síðasta tímabil var klárað í „búbblu“ í Orlando í Flórída. Á meðal málefna sem varpað var ljósi á voru ofbeldi af hálfu lögreglu og kynþáttaójöfnuður, þar sem „Black Lives Matter“-hreyfingin var áberandi.

Fundinum lauk um hádegisbil í Vatíkaninu og hyggjast leikmennirnir sem voru viðstaddir fundinn ræða hvað þar fór fram í dag eða á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert