Blóðtaka fyrir íslenska landsliðið

Haukur Helgi Pálsson verður ekki með karlalandsliðinu í vikunni.
Haukur Helgi Pálsson verður ekki með karlalandsliðinu í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik og leikmaður Andorra í efstu deild Spánar, verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Lúxemborg og Kosovó í forkeppni HM en þetta kom fram í fréttatilkynningu sem KKÍ sendi frá sér í dag.

Ísland mætir Lúxemborg á morgun, 26. nóvember, og Kosovó 28. nóvember en báðir leikirnir fara fram í Bratislava í Slóvakíu.

Haukur Helgi greindist með kórónuveiruna í byrjun mánaðarins en til stóð að hann myndi hitta liðsfélaga sína í dag. Hann gekkst undir kórónuveirupróf í gær sem reyndist jákvætt og því getur hann ekki tekið þátt í verkefninu með landsliðinu.

Þetta er áfall fyrir íslenska landsliðið en Martin Hermannsson verður einnig fjarri góðu gamni þar sem hann spilar í Evrópudeildinni með Valencia á sama tíma og landsleikirnir fara fram.

Ragnar Ágúst Nathanaelsson tekur sæti Hauks Helga í íslenska liðinu en hann var valinn í hópinn sem þrettándi maður og átti að vera til taks ef eitthvað kæmi upp á.

mbl.is