Fjórtán stiga sigur gegn Lúxemborg

Baldur Ragnarsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Kári …
Baldur Ragnarsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Kári Jónsson fagna á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/FIBA

Ísland sigraði Lúxemborg 90:76 í forkeppni HM 2023 í körfuknattleik í Eurovia Aréna í Bratislava í Slóvakíu í dag. 

Ísland er í efsta sæti B-riðils forkeppninnar með 5 stig en Lúxemborg er án stiga í fjórða og neðsta sæti riðilsins. Kósóvó og Slóvakía mætast í dag og Kósóvó getur þá endurheimt toppsætið. 

Leikurinn gekk ekki of vel hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik. Hittnin var slæm og Lúxemborg var yfir að loknum fyrri hálfleik 38:34. Leikmönnum gekk illa að finna Tryggva nærri körfunni og sóknunum lauk gjarnan með þriggja stiga skotum. Tryggvi skoraði ekki í opnum leik í fyrri hálfleik. 

Tryggvi Snær Hlinason tekur vítaskot í leiknum í dag. Hann …
Tryggvi Snær Hlinason tekur vítaskot í leiknum í dag. Hann skilaði sínu og rúmlega það í síðari hálfleik þegar Ísland náði tökum á leiknum. Ljósmynd/FIBA

Leikurinn gerbreyttist í þriðja leikhluta. Þegar staðan var 47:40 fyrir Lúxemborg varð vendipunktur í leiknum þegar Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði sjö stig í röð en Hörður er nú orðinn „gamli maðurinn“ í liðinu. Þetta frumkvæði Harðar gaf liðinu byr undir báða vængi og því var vel fylgt eftir. 

Ísland náði tíu stiga forskoti og í síðasta leikhlutanum komst Lúxemborg ekki nær en sex stig. Íslenska liðið landaði öruggum sigri en munurinn varð mestur nítján stig. 

Leikmönnum tókst að finna Tryggva í sókninni í síðari hálfleik svo um munaði. Skoraði hann 17 stig í leiknum og því 16 í síðari hálfleik. Alls tók Tryggvi 11 fráköst. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 90:76 Lúxemborg opna loka
99. mín. skorar
mbl.is