Leikur sem við eigum að vinna

Baldur Þór Ragnarsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og …
Baldur Þór Ragnarsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Kári Jónsson fagna á hliðarlínunni í gær. Ljósmynd/FIBA

Baldur Þór Ragnarsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, er bjartsýnn fyrir leik liðsins gegn Kosovó í forkeppni HM 2023 á morgun en leikurinn fer fram í Bratislava í Slóvakíu.

Ísland vann sterkan fjórtán stiga sigur gegn Lúxemborg í gær, 90:76, en Baldur á von á allt öðruvísi leik á morgun.

Aðstoðarþjálfarinn ræddi málið við Valtý Björn Valtýsson á Sport FM í dag.

„Kosovó er aðeins öðruvísi lið en Lúxemborg,“ sagði Baldur Þór.

„Þeir eru ekki að spila jafn mikið með fimm fyrir utan og Lúxemborg og þeir eru með sterkari leikmenn í stöðum þrjú og fjögur.

Haukur Helgi og Pavel eru vanir að spila þessa stöðu með landsliðinu og við erum án þeirra í þessu verkefni.

Við þurfum því að finna leiðir til þess að stoppa þessar stöður þar sem við erum lægri í loftinu. Þeir geta sótt á okkur þarna en að sama skapi erum við með mörg vopn í vopnabúrinu líka.

Ef að við gerum okkar vel þá eigum við að vinna þennan leik,“ bætti Baldur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert