Hver leikur er mikilvægur

Tryggvi Snær Hlinason í baráttunni gegn Slóvakíu í febrúar á …
Tryggvi Snær Hlinason í baráttunni gegn Slóvakíu í febrúar á þessu ári. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir liði Kósóvó í forkeppni HM í dag. Leikurinn, sem hefst klukkan 15, er mikilvægur fyrir bæði lið enda eru þrjú lið af fjórum í B-riðlinum jöfn með 5 stig og komast tvö þeirra áfram í næstu umferð undankeppninnar.

Tryggvi Snær Hlinason, miðherji landsliðsins, er spenntur fyrir leiknum. „Leikurinn leggst vel í mig. Við áttum ágætisleik síðast gegn Lúxemborg,“ sagði Tryggvi í samtali við Morgunblaðið.

Hann sagði liðið vilja hefna fyrir naumt 78:80 tap gegn Kósóvó í fyrri leik liðanna í febrúar síðastliðnum. „Við spiluðum við Kósóvó fyrr árinu og töpuðum þar með tveimur stigum þannig að við þekkjum þá og vitum hvað við þurfum að gera.“

„Við viljum hefna fyrir þetta tap, sérstaklega upp á sálina að gera. En við tökum bara á þessum leik eins og þeim síðasta gegn Lúxemborg. Við ætlum einfaldlega að vinna þessa leiki okkar. Þetta eru bara fjögur lið og sex leikir þannig að hver leikur er mjög mikilvægur,“ bætti Tryggvi við.

Á fimmtudaginn sigraði íslenska liðið Lúxemborg með 90 stigum gegn 76. Tryggvi skoraði 17 stig í leiknum, þar af 16 í síðari hálfleik. „Fyrri hálfleikur var ekkert mjög flottur hjá okkur en við sýndum í síðari hálfleik hvað við getum gert og þar var ég í fararbroddi í rauninni. Við hefðum þurft að byrja betur en það er bara eðlilegt eftir langan tíma í sundur, að koma okkur aftur saman. Í lokin leit þetta mjög vel út hjá okkur.

Eftir þennan leik á fimmtudaginn held ég að við séum svolítið að setja okkur aftur saman og koma okkur í þann farveg sem við viljum vera í, þar sem við spilum okkar bolta. Þannig að mér líst mjög vel á þetta,“ sagði Tryggvi einnig.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert