Ísland í toppsætið eftir stórsigur

Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur í dag.
Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann sinn þriðja sigur í röð í forkeppni heimsmeistaramótsins 2023 og annan á þremur dögum er liðið vann afar sannfærandi 86:62-sigur á Kósovó í Slóvakíu í dag. Ísland fór með sigrinum í toppsæti B-riðils, en efstu tvö lið riðilsins fara áfram í næsta stig forkeppninnar.  

Kósovó byrjaði betur og gekk illa hjá íslenska liðinu að skora í upphafi leiks. Fyrsta karfan kom eftir þrjár og hálfa mínútu en Kósovó var áfram skrefinu á undan og var staðan 17:11, Kósovó í vil þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta.

Ísland kláraði leikhlutann af krafti og skoraði tíu síðustu stigin og var staðan eftir fyrsta leikhlutann 21:17, Íslandi í vil. Íslenska liðið hélt áfram að bæta í næstu tíu mínúturnar og margir leikmenn lögðu sitt að mörkum. Hörður Axel Vilhjálmsson, Ægir Þór Steinarsson og Kári Jónsson spiluðu allir mjög vel í 2. leikhluta og var staðan í hálfleik 45:29.

Kósovó byrjaði ágætlega í seinni hálfleik, en Ísland svaraði og var staðan 54:38 þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður og íslenska liðið í afar góðum málum. Ísland vann leikhlutann að lokum 22:14 og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 67:43.

Síðasti leikhlutinn reyndist formsatriði fyrir íslenska liðið og var sigurinn afar sannfærandi.

Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu með 22 stig og þeir Kári Jónsson og Jón Axel Guðmundsson gerðu 13 stig hvor. Þar á eftir komu Tryggvi Snær Hlinason og Ægir Þór Steinarsson með 12 stig hvor. 

Ísland 86:62 Kósovó opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert