Hefur misst sjö ættingja í hendur veirunnar

Karl-Anthony Towns í leik með Minnesota Timberwolves.
Karl-Anthony Towns í leik með Minnesota Timberwolves. AFP

Karl-Anthony Towns, miðherji Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni í körfuknattleik, segir að sjö ættingjar hans hafi látist af völdum kórónuveirunnar. Á meðal þeirra er móðir hans, sem lést í apríl.

Towns greindi frá þessu í samtali við NBA.com í gær.

„Ég hef ekki verið á góðum stað síðan ég missti móður mína,“ sagði hann. „Ég hef gengið í gegnum ýmislegt, sem byrjaði auðvitað með móður minni. Í fyrrakvöld var svo hringt í mig og mér sagt að frændi minn hafi látist.“

„Ég hef þurft að horfa upp á mikinn fjölda af líkkistum á síðustu sjö mánuðum. Það eru mjög margir í fjölskyldunni minni sem hafa fengið kórónuveiruna,“ bætti hann við. Faðir Towns er einn þeirra sem hefur greinst með veiruna en hefur náð fullum bata.

Towns segir að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar og hafi því ákveðið að taka ábyrgð á allri upplýsingagjöf varðandi kórónuveiruna til fjölskyldunnar sinnar.

„Ég er sá sem er alltaf að reyna að leita svara með það fyrir augum að fjölskyldan mín haldi heilsu. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á herðum mínum sem snýr að því að halda fjölskyldu minni vel upplýstri og að gera allt sem mögulega þarf að gera til þess að halda þeim á lífi,“ sagði hann einnig.

mbl.is